Tilkynningar

Minningarorð um Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, fyrrverandi alþingismann

15.5.2023

Minningarorð forseta Alþingis, Birgis Ármannssonar, um Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, fyrrverandi alþingismann, á þingfundi mánudaginn 15. maí 2023.

Anna Kolbrún Árnadóttir, fyrrverandi alþingismaður og varaþingmaður á þessu kjörtímabili, lést á Akureyri 9. þessa mánaðar, 53 ára að aldri. Anna Kolbrún fæddist á Akureyri 16. apríl 1970, dóttir hjónanna Árna V. Friðrikssonar og Gerðar Jónsdóttur. Hún ólst upp á Akureyri og þar við Verkmenntaskólann tók hún sjúkraliðapróf. Anna Kolbrún starfaði sem sjúkraliði um árabil, fyrst á Akureyri og síðan í Danmörku þar sem hún bjó um skeið. Á Danmerkurárunum söðlaði Anna Kolbrún um og tók að nema kennslufræði fyrir leikskóla. Hún lauk námi sem leikskólakennari í Óðinsvéum árið 2002, flutti þá heim til Akureyrar og hélt þar áfram að bæta við sig námi í menntunar- og sérkennslufræðum sem hún lauk með M.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri árið 2010. Eftir heimkomuna frá Danmörku og þar til hún settist á þing starfaði Anna Kolbrún lengstum við grunnskóla í heimabæ sínum.

Anna Kolbrún Árnadóttir starfaði á vettvangi Framsóknarflokksins á Akureyri um skeið og var formaður Landssambands Framsóknarkvenna á árunum 2015–2017, en gekk í Miðflokkinn við stofnun hans og var kjörin á þing af framboðslista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi í kosningunum 2017. Hún var varaformaður flokksins frá 2018. Anna Kolbrún sat á þingi kjörtímabilið sem hófst haustið 2017 og fram til kosninga haustið 2021. Í þeim kosningum var hún einnig í framboði fyrir Miðflokkinn í Norðausturkjördæmi en náði ekki kjöri. Hún var varaþingmaður á yfirstandandi kjörtímabili og sat síðast hér í þingsalnum í mars síðastliðnum. Alls sat Anna Kolbrún á sex löggjafarþingum. Hér á þingi lét Anna Kolbrún sér títt um byggðamál og heilbrigðis- og menntamál og hún átti sæti í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Öll störf hennar á Alþingi báru vott um vandvirkni og samviskusemi. Hún var traustur fulltrúi síns flokks í þingstörfunum þar sem hún fór fram með hægð en festu.